139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

endurreisn efnahagslífsins.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti Við Íslendingar erum í kreppu. Við erum að upplifa mikinn efnahagslegan samdrátt og þar af leiðandi hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla, tekjuhalli hins opinbera var 155 milljarðar á síðasta ári. Þetta eru geigvænlegar tölur.

Á Alþingi höfum við tekist á um það í bráðum þrjú ár hvernig við munum rífa okkur upp úr þessum öldudal. Okkar áhersla hefur verið sú að fá hagvöxt í gang og skapa ný störf. Að sjálfsögðu hefur þurft að gæta mikils aðhalds og við höfum orðið fyrir ýmiss konar einskiptiskostnaði vegna endurreisnar fjármálakerfisins og ábyrgða sem ríkið þurfti að gangast við en hagvöxturinn hefur staðið á sér.

Nú nýlega, 12. september sl., komu út Hagtíðindi. Þar kemur fram að landsframleiðslan á öðrum ársfjórðungi þessa árs dróst saman. Hún hefur þó vaxið um 2,5% á árinu en það er vegna þess hversu sterkur fyrsti ársfjórðungurinn var og þar skipti hlutur sjávarútvegsins sköpum. Hann bar uppi þann litla vöxt sem var að finna í íslensku hagkerfi.

Spár um framhaldið eru ekki góðar og þegar við berum niður í þjóðhagsreikninga síðasta árs og skoðum hvernig tekjur og gjöld ríkissjóðs hafa þróast á umliðnum árum dregst upp alveg skelfilega dökk mynd. Þess vegna skiptir öllu að okkur takist sem allra fyrst, strax á næsta ári, að sjá meiri vöxt en við höfum upplifað undanfarin ár. Mig langar að bera það undir fjármálaráðherrann hvort hann trúi því að við getum komist í gegnum þetta með þeim hagvaxtarspám sem eru frammi núna, t.d. um 1,6% hagvöxt frá Seðlabankanum. Eða hvað er ríkisstjórnin með á prjónunum til að við fáum þann 4–5% hagvöxt sem við þurfum raunverulega á að halda? Því hefur ekki verið mótmælt af hæstv. forsætisráðherra eða fjármálaráðherra fram til þessa. Það er hagvöxturinn sem við þurfum. Hvað er í kortunum um að eitthvað slíkt (Forseti hringir.) sé í vændum?