139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

endurreisn efnahagslífsins.

[10:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt, Ísland lenti í mikilli kreppu en við erum lögð af stað upp úr henni. Það varð mikill samdráttur í þjóðarbúskapnum á árunum 2009 og 2010. Engu að síður hefur náðst mjög mikill árangur í ríkisfjármálunum. Þó að hv. þingmaður nefni tölur á svonefndum þjóðhagsgrunni Hagstofunnar notum við almennt þá mælikvarða sem hér eru lagðir á hlutina samkvæmt fjárlögum og ríkisreikningi. Það er vissulega rétt að hallinn á rekstrargrunni í fyrra var 123 milljarðar en það skýrist fyrst og fremst, og frávikið frá fjárlögum nánast alfarið, af tveimur stórum einskiptisáföllum sem varð að bókfæra í ríkisreikningi, 33 milljarða kr. framlagi til Íbúðalánasjóðs sem var afskrifað á einu bretti og á þriðja tug milljarða vegna ríkisábyrgða sem var ákveðið að afskrifa. Þær féllu á ríkið þegar hinn einkavæddi Landsbanki féll og til lífsins vöknuðu gamlar ríkisábyrgðir sem ekki höfðu verið leystar upp þegar bankinn var einkavæddur. Þetta sýnir á hinn bóginn að undirliggjandi rekstur ríkisins hefur batnað til mikilla muna og um það eru allir sammála nema þá stjórnarandstaðan.

Það er rétt að það er mikil sveifla í bráðabirgðauppgjöri Hagstofunnar um landsframleiðslu milli ársfjórðunga. Hagstofan sjálf biður menn að hafa mikinn vara á þeim samanburði og telur að langtímameðaltöl, t.d. fyrri helmingur ársins sem slíkur, séu raunhæfari mælikvarði. Það eru miklar og óvenjulegar birgðabreytingar sem valda þessari tilfærslu en útkoman er engu að síður 2,5% hagvöxtur á fyrri helmingi ársins og ágætar horfur út frá hagvaxtarspánni fyrir þetta ár að hagvöxtur verði á bilinu 2,5–2,8%, þ.e. að spáin standist. Það er eiginlega allt sem teiknar til þess að þriðji ársfjórðungur verði góður, (Forseti hringir.) þjónustujöfnuðurinn er mjög jákvæður vegna mikilla umsvifa í ferðaþjónustu. Horfurnar eru ágætar á því að hagvaxtarspáin fyrir árin 2011–2013 upp á um það bil (Forseti hringir.) 2,5–2,7% að meðaltali á þessu þriggja ára tímabili gangi eftir.