139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

endurreisn efnahagslífsins.

[10:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Tölurnar um afkomu ríkisins eru einfaldlega sláandi, það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Sökin liggur ekki öll hjá núverandi ríkisstjórn og vissulega hefur hrapið verið stöðvað en það er hin kraftmikla viðspyrna sem við söknum. Það er hún sem þjóðin kallar eftir.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um 2% hagvöxt og að það sé ásættanlegt. Hann hefur áður vísað til þess að það sé jafnvel sambærilegt við það sem er að gerast annars staðar í OECD. En vandamál okkar er að samdrátturinn var svo gríðarlegur að við þurfum miklu kröftugri viðspyrnu. Það er vandinn.

Nú langar mig til dæmis að bera eitt undir hæstv. fjármálaráðherra. Er einhver von til þess að þeir flokkar sem fara með meiri hluta í þinginu geti komið sér saman um virkjun neðri hluta Þjórsár? Það er einn prófsteinn á það hvort ríkisstjórnin er samstiga þjóðinni í því að fá kraftmikla viðspyrnu héðan af þessum botni sem við höfum fundið eftir hrunið 2008. Er einhver samstaða um það í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) að fara í virkjun neðri hluta Þjórsár?