139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afstaða ráðherra til frumvarps um Stjórnarráðsins.

[10:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég bið að sjálfsögðu þingheim velvirðingar á þeim ósköpum að mér skyldi verða það á að sletta hérna dönsku, það kann að vera af því að það eru spennandi þingkosningar í Danmörku í dag. Það er til ágæt íslensk útgáfa af þessu sama og það hljómar þá þannig að það þurfi tvo til að dansa tangó. Það næst ekki samstaða um mál nema það sé vilji til þess frá báðum hliðum. Deilurnar 2007 stóðu um frumvarp sem kom fram strax eftir stjórnarskipti og átti að keyra í gegn strax þá, á nokkrum dögum, og ráðast strax í þær breytingar. Hér er hins vegar á ferðinni frumvarp sem á sér langa meðgöngu og langan aðdraganda. Undirbúningsvinna er hafin, nefnd fer af stað í kjölfar þess að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kemur út, fer yfir málefni Stjórnarráðsins og skilar viðamikilli skýrslu um það á grundvelli þess sem þar kemur fram. Á þeim grunni verður síðan til frumvarp sem búið er að vera til umfjöllunar hér á þingi mánuðum saman. Í þessu frumvarpi eru engar slíkar breytingar, þetta er bara hinn almenni lagarammi. Inn í hann fylla menn (Forseti hringir.) með ákvörðunum sínum á komandi tímum um breytingar á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins og það er bara annað mál. (Gripið fram í.) Við erum að ræða hér hinn almenna lagaramma.