139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

staðsetning nýs öryggisfangelsis.

[10:51]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég var einmitt að kalla eftir því að fram fari málefnaleg umræða á Alþingi um forsendur fyrir öllum þessum kostum. Kynntir hafa verið útreikningar frá árinu 2010 og aftur nýir útreikningar núna sem virðast ganga í ólíkar áttir og vel má vera að hægt sé að finna samhljóm í þeim báðum. En við þurfum að fá forsendurnar hingað inn, ræða málið út frá öllum hliðum. Alþingi tæki síðan ákvörðun um það, í gegnum fjárlög núna í haust, og mögulega með öðrum hætti, hvaða leið sé best að fara, þá upphaflegu leið sem til dæmis var í tillögum að byggja nýtt komu- og gæsluvarðhaldsrými í Reykjavík en öryggisálmu áfram við Litla-Hraun á Eyrarbakka eða þá leið sem ráðherrann leggur til. Þetta fer allt eftir forsendum hvað varðar fjármálalega útkomu og fagleg rök fyrir hvoru tveggja. En þetta þarf að fara yfir á Alþingi og ræða ítarlega og málefnalega og taka síðan ákvörðun að því ferli öllu gengnu.