139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Magma.

[10:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða við hæstv. fjármálaráðherra um aðkomu hans að svokölluðu Magma-máli. Ég vitna til minnisblaðs, frá 12. mars 2010, sem liggur fyrir í gögnum sem mér hafa borist um þetta mál. Þar segir meðal annars:

„Ákveðin óvissa er um framhald fjárfestingar Magma, annars vegar þar sem nefnd um erlendar fjárfestingar hefur ekki skilað niðurstöðu og hins vegar vegna þess að Íslandsbanki vill fá staðfestingu á því samkomulagi sem fjármálaráðherra og Ross Beaty gerðu með sér um að Magma mætti eiga allt að 50% hlut í HS Orku á móti innlendum aðilum.“

Í bréfi til hæstv. fjármálaráðherra frá Ross Beaty, frá 2. september 2009, kemur fram að Ross Beaty skilji fullkomlega hæstv. fjármálaráðherra þegar hann geri þá kröfu að Magma eigi ekki meira en 50% í HS Orku. Þetta gerist á sama tíma og í þjóðfélagsumræðunni og í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni er verið að tala um að vinda ofan af mögulegum fjárfestingum erlendra aðila í þessum fyrirtækjum. Þetta gerist á sama tíma og samþykktin liggur fyrir hjá Vinstri grænum, að hæstv. fjármálaráðherra er að vinna með þessum hætti. Ég vil inna fjármálaráðherra eftir þessu máli, hver hans viðbrögð eru og af hverju vinnubrögðin hafa verið með þessum hætti og hvort hann hafi gert þetta samkomulag.

Það liggja einnig fyrir drög að samkomulagi sem fjármálaráðuneytið sendi til Magma á þessum tíma þar sem áhersla er lögð á að allri orku suður frá verði beint í aðrar áttir, unnið verði að því að víkka út kaupendahóp Magma og fyrst og fremst horft til umhverfisvæns iðnaðar.