139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Magma.

[10:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér þykir ágætt að hafa þann vitnisburð frá nefndum Ross Beaty að hann hafi skilið mig og það er ekkert leyndarmál að ég sagði honum að ég mundi gera það sem í mínu valdi stæði til að reyna að tryggja að hann næði aldrei meiri hluta og forræði í þessu fyrirtæki, ég væri á móti því. Ég hef þá eina sönnun þess að ég hef reynt að gera eitthvað í málinu og öfugt við ýmsa aðra sem hafa haft hátt um þetta en kannski ekki lagt mikið af mörkum þegar upp er staðið.

Ég tók þetta mál í fangið en mér bar engin skylda til þess. Það var vegna þess að mér fannst blóðugt að horfa upp á það að þetta þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins gengi okkur úr greipum með þessum hætti. Öfugt við marga aðra reyndi ég þó að gera eitthvað og hvað hef ég fengið nema skammir og svikabrigsl fyrir það? Það var ekki þannig. Það var Ross Beaty sjálfur sem að eigin frumkvæði ræddi um æskilega framtíðarþróun í orkunýtingarmálum og hann er sennilega ekki alvitlaus bisnessmaður vegna þess að hann áttaði sig á því að það gæti verið vænlegt fyrir fyrirtæki, sem hann hafði áhuga á að fjárfesta í og var búinn að fjárfesta í, að eiga úr breiðum viðskiptavinahópi að velja sem gæti borgað sæmilegt verð fyrir rafmagnið. Þarna var verið að vísa til æskilegrar framtíðarþróunar og viðskiptasambönd fyrirtækisins HS Orku við núverandi aðila sína bar aldrei á góma í þessum viðræðum, aldrei. Það staðfestu þrír menn á fundi iðnaðarnefndar í gær, sá sem hér stendur, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins. En það dugar ekki hv. þm. Jóni Gunnarssyni þegar hann er hér í sínum leik.