139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Heilsustofnunin í Hveragerði.

[11:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég kem upp í þessum fyrirspurnatíma til að eiga orðastað við hæstv. velferðarráðherra um málefni Heilsustofnunarinnar í Hveragerði. Málefni hennar hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga vegna þess að þar hefur verið tekin ákvörðun um að segja upp öllum starfsmönnum stofnunarinnar frá og með næstu áramótum vegna þess að þjónustusamningur við ríkið rennur út um áramót og að engar raunverulegar viðræður séu í gangi við ráðuneytið um áframhaldandi samning.

Mér finnst mjög miður að heyra þetta. Ég tel að á þeirri stofnun sé rekin mjög góð og mikilvæg heilbrigðisþjónusta, fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónusta. Þarna er um að ræða starfsemi sem heldur fólki fyrir utan bráðastofnanir með endurhæfingu og forvörnum, starfsemi sem er óumræðilega að spara heilbrigðiskerfinu verulega fjármuni að þessu leyti.

Í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu segir að 4. júlí sl. hafi ráðherra fundað með forsvarsmönnum Heilsustofnunarinnar og gert grein fyrir afstöðu sinni. Einnig kemur fram af hálfu ráðuneytisins að það hafi komið á óvart að stofnunin telji nauðsynlegt að grípa til hópuppsagna við þær aðstæður sem nú eru. En mér finnst skiljanlegt að stofnunin, sem ekki hefur samning eftir áramótin og ef rétt er að engar viðræður séu í gangi, telji sig knúna til að grípa til slíkra varúðarráðstafana.

Ég vil því spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort ráðherrann geti upplýst um hvaða fundi hann hefur átt og hvenær hann fundaði síðast með Heilsustofnuninni. Hvort hann geti veitt fyrirheit um að ekki standi annað til en að endurnýja þjónustusamning við Heilsustofnunina og hvort hann geti ekki veitt fyrirheit um að hin mikilvæga heilbrigðisstarfsemi verði tryggð sem og starfsöryggi starfsmanna.