139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Heilsustofnunin í Hveragerði.

[11:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu ráðherrans en ég vil að gefnu tilefni — vegna þess að í umræðunni hefur nokkuð verið talað um það hvort hér sé raunveruleg heilbrigðisstarfsemi á ferðinni, ég hef séð það í ýmsum frásögnum og fréttum — spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að þar sé heilbrigðisþjónusta veitt. Ég þekki starfsemina að því að þar er lögð áhersla á endurhæfingu eftir sjúkdómsmeðferðir, stuðning vegna andlegra veikinda, öldrunarmeðferð og almenna heilsueflingu og forvarnir. Það er í mínum huga skýr heilbrigðisstarfsemi. Ég vil fá staðfestingu frá hæstv. ráðherra um að hann sé sama sinnis og jafnframt hvetja hann til að vinda bráðan bug að því að eyða allri óvissu um þá starfsemi því að hópuppsagnir starfsmanna byggjast á því að samningar eru ekki fyrir hendi. Það er bersýnilegt að forsvarsmenn þeirrar stofnunar sjá það ekki alveg gerast á næstunni að slíkir samningar náist og þess vegna eru þeir að grípa til þessara varúðarráðstafana.

Ég heiti á hæstv. velferðarráðherra að taka af allan vafa í þessu efni.