139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:16]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Alþingi er svo sannarlega enginn venjulegur vinnustaður. Starf okkar felst að miklu leyti í því að tala og ræða málin. Oft er umræðan heilbrigð og í góðum takti við heilbrigðar umræðuvenjur og góðar rökræður sem leiðir til sameiginlegrar niðurstöðu. En það á ekki alltaf við. Mismunandi lífssýn og hugmyndafræði okkar veldur því að ekki er alltaf hægt að ná sameiginlegri niðurstöðu. Fyrir utan þennan virðulega hornstein lýðræðisins þýðir það oftast að menn dragi saman áhersluatriði sín og rök, leggi þau fram og viðurkenni að þeir verði ekki sammála og hlíti síðan lýðræðislegri niðurstöðu.

Ég velti því fyrir mér nú sem aldrei fyrr hvort ekki megi nýta svipaða aðferðafræði í löggjafarsamkomunni og þeir sem hér hafa talað fyrir nefndarálitum í stjórnarráðsmálinu eða aðrir forustumenn stjórnmálaaflanna í þinginu safni saman rökum sínum í 20–40 mínútna ræðum og leggi síðan málið í dóm þingsins til lýðræðislegrar niðurstöðu. (Gripið fram í.) Gamalgrónum pólitíkusum kann að finnast þessi tillaga barnaleg en ég er ekki viss um að þjóðin sé þeim sammála. Tökum nú höndum saman, nýtum tímann og ljúkum umræðunni um Stjórnarráðið, sem nú hefur verið rætt í um það bil 60 klukkustundir, held ég, í þeirri sátt, um það verðum við ekki sammála. Leggjum það í dóm okkar virðulegra þingmanna og afgreiðum síðan önnur mál á þann hátt sem okkur er samboðið. Til þess verðum við að halda áfram fram á kvöld, (Forseti hringir.) kannski ekki svo lengi að við sýnum þann þroska að vinna eins og tíðkast annars staðar í þessu samfélagi.