139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:29]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún segir að forseti hafi misst ákveðna stjórn á störfum í þinginu. Það var augljóst í gær og á alveg sérstaklega við gagnvart stjórnarþingmönnum sem komu hér upp og uppnefndu forseta Íslands, töluðu um greindarskerta þingmenn og töluðu um geðklofa þingmenn. Forseti brást ekki við með því að víta þá þingmenn fyrir þessi ummæli, hann brást ekki við með þeim hætti.

Virðulegi forseti. Það er augljóst að þarna hefði átt að víta þingmenn. Umræðan var orðin þannig í gær að full ástæða er til að kæla þetta mál og reyna að ná um það frekari sátt. Ég vil hvetja virðulegan forseta til að fresta umræðu svo að við getum snúið okkur að öðrum málum og jafnframt að gefa sérstaklega þingmönnum stjórnarflokkanna tækifæri til að hlusta á tímamótaræðu í þessu máli sem Atli Gíslason flutti, eina af mörgum góðum ræðum sem hafa verið flutt um þetta mál. (Forseti hringir.) En þessi ræða, sem var flutt kl. 1 í nótt, markaði ákveðin tímamót. Það hefðu allir hv. þingmenn (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna gott af því að spila þessa ræðu og hlusta á hana (Forseti hringir.) og koma svo til þessarar umræðu í kjölfarið á því.