139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í störfum mínum á öðrum vettvangi hef ég oft og iðulega vakað heilu næturnar og margar nætur í röð. (Gripið fram í.) Það hefur oft snúist um það að þá eru menn að bjarga verðmætum. Á þessu þingi sem til stóð að stæði í tvær vikur til að klára mál sem höfðu gleymst, sem væru brýn, sem væru dagsetningarmál, sem væru mál sem við gátum ekki klárað í vor vegna þess að þá var líka þvílík kastþröng að ekki var hægt að gera nokkurn skapaðan hlut, þá erum við stödd núna — hvar? Ég spyr og beini fyrirspurn minni til frú forseta: Hver stjórnar þinginu?

Í þingmannanefndinni og skýrslunni sem var samþykkt hér með 63 atkvæðum var það niðurstaðan að þingmannanefndin taldi brýnt að Alþingi tæki starfshætti sína til endurskoðunar, verji og styrki sjálfstæði sitt, marki skýr skil á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Alþingi á ekki að vera verkfæri í höndum framkvæmdarvalds og oddvitaræðis. Hvað erum við að gera hér þessa dagana? Ég er til í að vera hér daga og nætur (Forseti hringir.) ef við erum að gera þá vinnu sem þarf fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu en ekki að fylgja oddvitaræðinu og framkvæmdarvaldinu. (Forseti hringir.) Það gengur ekki, frú forseti.