139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þó að ég sé bjartsýn að eðlisfari geri ég mér grein fyrir því að þessi tillaga verður samþykkt um langan kvöldfund. En þá fer ég fram á það við hæstv. forseta að hæstv. ráðherrar og ekki síst fjármálaráðherra, í ljósi þeirra orða sem hann lét falla áðan um að það væri mikil hagræðing fólgin í þessu frumvarpi, verði hér til svara. Við höfum beðið um svör af hálfu ráðherra og þá biðjum við um að ráðherrarnir sem hafa mætt hér og tjáð sig sitji undir ræðum okkar og svari spurningum. Eins hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar talað fjálglega um tillögu, virðingarverða tillögu ákveðinna þingmanna sem var lögð fram í gær.

Ég hef kallað eftir því að fá viðhorf hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og innanríkisráðherra til þessara tillagna. (Gripið fram í: Af hverju ekki mín?) En eins og fyrri daginn er ekkert svar af hálfu ríkisstjórnarinnar. Stóru spurningu okkar í stjórnarandstöðunni um hvert sé mikilvægi málsins að knýja þetta fram á þessum dögum þegar hægt er að setja fram önnur mál hefur heldur ekki verið svarað. Þetta er ekki dagsetningarmál. Enginn hefur svarað (Gripið fram í.) þessari spurningu: Af hverju er verið að knýja þetta mál í gegn umfram mál sem tengjast til að mynda hagsmunum heimilanna, en eins og segir í laginu — ekkert svar.