139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það bendir ýmislegt til þess að við þurfum að ræða þetta mun lengur þegar maður heyrir í sumum þingmönnum, eins og hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni sem heldur því fram að hér sé um lýðræðislegar umbætur að ræða þegar verið er að færa völd frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Ég held að það sé ekki hægt að túlka þetta mál með þeim hætti sama hversu góður viljinn er.

Staðan er bara sú að þingið er stjórnlaust. Ljóst er að þessi stubbur sem átti að nota til að klára eitt, tvö mál, hefur verið nýttur með allt öðrum hætti en lagt var upp með. Menn ætla að ljúka í dag, virðulegi forseti, 46 málum og það var bætt við 5. málið í morgun, ef ég skil rétt.

Nú spyr ég, virðulegi forseti: Hvort telja menn að sé vænlegra til árangurs, ef við ætlum að koma einhverju skikki á þingið, að menn setjist niður og fari yfir þetta, dragi andann djúp og kanni hvort einhver flötur sé á því að vinna þetta með sóma (Forseti hringir.) eða að halda áfram eins og við höfum gert núna undanfarna daga? Ég hvet hv. þingmenn (Forseti hringir.) og virðulegan forseta með mestri virðingu að íhuga þetta.