139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég ætla mér að greiða atkvæði með því að þingfundur verði lengdur í kvöld því að ég tel mjög mikilvægt að við nýtum tímann vel sem eftir er af starfsáætlun þingsins.

Ég vil hins vegar svara þeirri gagnrýni sem hefur komið fram um að ekki hafi fengist svör við þeim spurningum sem menn voru með hér við meðferð málsins. Það liggur ekki fyrir hver er kostnaðaraukinn hjá ríkissjóði við samþykkt þessa frumvarps og mér þykir það bagalegt þegar það liggur ekki fyrir. En ég vil í mestu vinsemd beina því til hæstv. forseta að eins og sagt er stundum á sjónum þegar allt er stopp: Það er allt í skrúfunni. Og þannig er ástandið núna í þinginu. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að reyna að losa úr henni í stað þess að slaka meira tógi í hana. Ég hvet hæstv. forseta til að boða strax formenn þingflokkanna á fund með hæstv. forseta og fara yfir þetta með þeim og tugta þá nú aðeins til (Forseti hringir.) til þess að hafa einhverja stjórn á þinginu því að það er algerlega stjórnlaust eins og það er.