139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir allt það sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir sagði um túlkun á þessu og ég ætla ekki að ræða það frekar. En ég vil vekja athygli á því hvað hv. þingmaður, einn öflugasti þingmaður stjórnarliðsins, sagði áðan. Það mun hafa áhrif á öll þingstörf um alla framtíð ef einhverjir stjórnarliðar koma ekki og segja að þeir séu ekki sammála honum.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði að heiðursmannasamkomulag væri ekki í þingsköpum, þar af leiðandi þyrfti ekkert að fara eftir þeim. Ef þetta er svo, ég vona að ég hafi misskilið hv. þingmann en það voru fleiri í salnum sem heyrðu þetta, þá hvet ég hv. stjórnarliða sem eru ósammála hv. þm. Merði Árnasyni (Forseti hringir.) að lýsa því yfir. Það er orðið ansi erfitt, (Forseti hringir.) virðulegu forseti, ef við getum ekki treyst á samkomulag sem hér er gert. Ég held að ég þurfi ekki að útskýra það neitt nánar.