139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[11:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða utan dagskrár mál sem hefur verið nokkuð í umræðunni en það hefur ekki hjálpað umræðunni að sama leyndarhyggjan virðist vera yfir þessu máli og mörgum öðrum sem tengjast þessari ríkisstjórn og hæstv. fjármálaráðherra. Þess vegna er fyrsta spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra sú hvenær hann ætli að svara þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra á viðskiptanefndarfundi 17. ágúst sl., fyrir mánuði. Hæstv. ráðherra kom á fund nefndarinnar, gat ekki svarað þeim spurningum sem þar voru bornar upp þannig að hv. viðskiptanefnd sendi hæstv. ráðherra spurningarnar og nú, mánuði seinna, erum við ekki enn búin að fá svör við spurningunum.

Ég er síðan með fjórar aðrar spurningar sem ég sendi hæstv. ráðherra á þriðjudagskvöldið. Ég ætla ekki að lesa þær upp vegna þess að ég hef þær ekki, þær eru á borðinu mínu en í örstuttu máli ganga þær út á það hvað varð um það eigið fé sem var í ársreikningum beggja þessara sparisjóða árið 2008, ársreikningum sem enginn hefur vefengt. Ég vek athygli á því að gengið var frá þeim ársreikningum í lok mars 2009. Þá átti að vera búið að taka tillit til afleiðinga hrunsins, falls krónunnar o.s.frv.

Á sama hátt, virðulegi forseti, er spurt sérstaklega um eiginfjárhlutfallið, af hverju sjóðirnir hafi starfað án þess að uppfylla lögbundið hlutfall um eiginfjárstöðu. Það var bæði þegar gömlu bankarnir störfuðu og líka þeir nýju.

Síðan er hin einfalda spurning hvernig það gat skeð að tíu mánuðum eftir að nýju bankarnir voru settir á laggirnar voru þeir komnir í þrot. Þetta er ekki lítið mál. Til að skoða einhverjar tölur í þessu samhengi telur Viðskiptablaðið að eignir Byrs sparisjóðs hafi rýrnað um 113 milljarða á tveimur árum. Þrátt fyrir að við höfum samþykkt hér lög um Bankasýslu sem er stofnun sem á að halda utan um eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefur það komið afdráttarlaust fram að það var fjármálaráðuneytið sem gerði það í þessu tilviki, höldum því til haga, og þess vegna er engum vafa undirorpið hver ber ábyrgð í því máli.

Nú gæti einhver spurt: Skiptir þetta einhverju máli? Skiptir einhverju máli að menn uppfylli ekki skilyrði um eiginfjárhlutfall, svo dæmi sé tekið? Menn setja reglur sem þessar til að vernda viðskiptavini bankanna. Frá því að menn fóru í þessa vegferð eftir hrun eru þessir sparisjóðir búnir að starfa núna í samkeppni við önnur fyrirtæki, samkeppni um að taka á móti innlánum og öðru slíku, við stofnanir sem þurftu ekki bara að vera með eiginfjárhlutfall upp á 8% eins og lög gera ráð fyrir, og þar af leiðandi hærra eiginfjárhlutfall en þessar stofnanir, heldur 16% en krafa um það hlutfall var gerð af Fjármálaeftirlitinu til þeirra stofnana sem höfðu fengið fyrirgreiðslu.

Allt bendir til þess, virðulegi forseti, að út af því hvernig á málum var haldið hafi orðið hér mikil eignarýrnun og menn hafi ekki getað nýtt þá stöðu sem var uppi með þeim hætti að hér væri hægt að hámarka vernd á eignum sem voru inni í þessum sparisjóðum. Þar af leiðandi verður reikningurinn sendur á skattgreiðendur í mun meira mæli en ástæða var til.

Stóra einstaka málið er þetta: Hvenær fáum við að vita hvað gerðist? Og af hverju leyfir hæstv. fjármálaráðherra sér að svara ekki mánaðargömlum spurningum frá hv. (Forseti hringir.) viðskiptanefnd?