139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hann sé búinn að standa í rústabjörgun á íslenskum fjármálamarkaði. En það er þannig að þegar maður er að vinna að björgunarstörfum getur verið hætta á því, ef maður veit ekki hvert maður stefnir eða hvað maður er að gera, að maður endi bara með því að grafa sig sífellt dýpra niður. Það getur verið ráðlegt að horfa aðeins upp og velta fyrir sér hvert maður stefnir og hver tilgangurinn sé með öllum þessum mokstri.

Það var ástæðan fyrir því að að frumkvæði okkar þingmanna í viðskiptanefnd var sett ákvæði í lög um fjármálafyrirtæki um að skipuð yrði nefnd sem mundi einmitt segja okkur hvert við stefndum, að það lægi fyrir pólitísk stefnumörkun um það hvers konar fjármálamarkað við vildum hafa á Íslandi. Sú nefnd tók nýlega til starfa en á sama tíma heldur hæstv. fjármálaráðherra áfram að grafa sig dýpra.

Fyrrverandi starfsmaður Fjármálaeftirlitsins hefur sagt að hún telji ekki hafa verið lagastoð fyrir stofnun hins nýja SpKef. Ég sjálf hef líka bent á að ég telji skorta lagastoð fyrir sölunni á hinum nýja Byr. Ég hef kallað eftir því, og fékk því miður ekki tækifæri á fundi viðskiptanefndar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um söluna á nýja Byr, hvort við sæjum ekki hérna á þessu haustþingi, þessum stutta haustbúti, frumvarp frá fjármálaráðherra sambærilegt lögum nr. 138/2009, um heimild til að staðfesta breytingar á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., til að heimila söluna á eignarhlut ríkisins á Byr. Þá hljótum við, um leið og þetta frumvarp kemur fram, að fá upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að sölunni, hvort að baki liggi einhverjar ríkisábyrgðir og hvert söluverðið er.

Fjármálaráðherra taldi að vísu þau lög líka ónauðsynleg enda hefur ítrekað komið fram sú skoðun hæstv. ráðherra að það sé kannski ekki ástæða til að trufla Alþingi allt of mikið með sölu á nokkrum bönkum.