139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:11]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að ráðherra hafi á fundum viðskiptanefndar og hér í umræðu í dag skýrt ítarlega út stöðu mála í málefnum Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur og langar því að beina athyglinni annað. Ég kalla eftir nánu samstarf allra flokka á Alþingi um að greina og skoða framtíðarþróun í íslensku bankakerfi. Þar eru margar aðkallandi spurningar. Er fýsilegt að stefna að því að hafa einn banka í ríkiseigu? Hvað ber að gera við eignarhluti ríkisins í öðrum stórum bönkum? Ber að stefna að sölu á þessum hlutum og hvernig á að standa að þeirri sölu? Ber að stefna að dreifðri eignaraðild og hvernig á að tryggja hana? Á að skrá þá eignarhluti á markaði og ber að stefna að aðskilnaði fjárfestingarbankastarfsemi og einkabankastarfsemi?

Ég tel einsýnt að hér eigi Alþingi að taka frumkvæðið. Mín tillaga er sú að ný efnahags- og viðskiptanefnd þingsins, sem tekur til starfa 1. október nk., skipi starfshóp sem rýni í stöðu bankakerfisins og leggi fram skýrslu á Alþingi. Í stað þess að menn læsi sig niður í afstöðu og að við eigum hér á hættu málþóf eða aðrar fundaæfingar tel ég þessa leið skynsamlega vegna þess að það er mikilvægt að við vöndum okkur við skrefin fram undan og ekki síður að við stefnum að mjög ítarlegri umræðu meðal þingheims og jafnframt hjá almenningi, háskólasamfélagi og öðrum aðilum.

Það getur farið svo að stjórnmálaflokkar séu ekki sammála um hvaða leiðir beri að fara og það er þá bara þannig en ég tel ágætt að áherslumunurinn kristallist skýrt og að skoðanaskipti eigi sér farveg. Valkostirnir eru þá skýrir fyrir almenningi.

Ég legg því til, frú forseti, að þingmenn allra flokka sameinist á vettvangi þingnefndar, að skipaður verði starfshópur sem greini þessa stöðu, greini valkosti sem eru á borðinu og þannig verði þess freistað að ná samtali og ekki síður sátt um hvernig farið verður með þær bankastofnanir sem nú eru í eigu ríkisins. Hér á Alþingi að hafa frumkvæði að gerð nokkurs konar hvítbókar um bankakerfið og framtíðarþróun þess. Óska ég eftir stuðningi þingmanna við þá tillögu.