139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að við höfum lítið sem ekkert lært af hruninu. Það varð 2008, neyðarlögin voru sett og í ljós kom að bankarnir átu sig að innan. Það sem við ræðum gerðist 2010. Menn hafa ekki skoðað og ekki velt fyrir sér þegar gengið var í endurfjármögnun þessara tveggja stofnana hvernig standi á því að ársreikningurinn 2008 sem birtur var 2009 hafi að geyma 16 milljarða jákvætt eigið fé Byrs og 5,4 milljarða í jákvæðu eigin fé Sparisjóðs Keflavíkur. Í febrúar 2010 er allt horfið og meira til. Hvernig stendur á því að við reisum banka á nýjan leik eða fjármálastofnanir eins og þessar tvær sem eru undir lögbundnum eiginfjármörkum þegar það var verulega gagnrýnt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis? Höfum við virkilega ekki, frú forseti, skoðað þá þætti sem okkur var bent á í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en hefðum átt að skoða árið 2010 við endurreisn þessara fjármálafyrirtækja? Í mínum huga er alveg ljóst að þeir voru ekki skoðaðir.

Ég held að sá millileikur að Fjármálaeftirlitið yfirtók þessar stofnanir og stofnuð voru tvö ný fyrirtæki, sem nú eru á leiðinni annað, hafi einfaldlega með þátttöku Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins með lágmarksstofnfjárframlagi til beggja stofnana verið íslenskum skattgreiðendum of kostnaðarsamur.

Hæstv. fjármálaráðherra er þátttakandi í þessu sérkennilega ferli og hann hlýtur því líka stundum að þurfa að líta í eigin barm sem núverandi fjármálaráðherra en ekki benda alltaf á hvernig einhverjir aðrir unnu vinnuna. Millileikurinn sem Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðherra lögðu til er íslenskum skattborgurum of kostnaðarsamur. Það sýnir sig nú.