139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur hafa margar hliðar. Alþingi skipaði fyrir nokkru nefnd sem leita á sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots sparisjóðanna á Íslandi. Nefndin mun einnig gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á um refsiverða háttsemi eða brot á starfsskyldum. Fram undan er því ítarleg rannsókn þar sem varpað verður ljósi meðal annars á þá atburði sem leiddu til falls Sparisjóðs Keflavíkur. Sparisjóðurinn í Keflavík starfaði í 103 ár og lengst af var almannahagur aðalatriði hjá sjóðnum, að styðja við atvinnu og menningu og ávaxta sparifé almennings. Hann hafði hins vegar fjarlægst þetta hlutverk sitt síðustu starfsárin, hlutverk sem sumir treystu á og studdu, og eins konar sýndarveruleiki virðist hafa tekið við. Við fall sparisjóðsins töpuðu margir miklum fjármunum, flestir þeirra gerðu sér vonir um að við uppgjör ætti bankinn eignir sem skiluðu sér til kröfuhafa. Ólíklegt er að svo muni verða, sjóðurinn virðist standa strípaður eftir fallið og greiða þarf milljarða króna úr ríkissjóði til að bjarga almennum innstæðum Suðurnesjamanna.

Virðulegi forseti. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig standi á þessum ósköpum. Hvers vegna var fall Sparisjóðs Keflavíkur svo hátt? Voru það ákvarðanir stjórnenda bankans sem gerðu fallið svo stórkostlegt eða voru það kannski ákvarðanir stjórnarmanna sem mestum usla ollu? Voru það þeir sem bankinn lánaði peninga sem ekki voru traustsins verðir? Yfir þessu velta Suðurnesjamenn vöngum sem margir höfðu notað sparifé sitt til að fjárfesta í stofnbréfum banka sem þeir töldu að stæði vel og urðu fyrir gríðarlegu tjóni. Sumir tóku meira að segja erlent lán vegna þess að þeim var sagt að það borgaði sig að setja það í þennan stönduga banka. Áhættan var miklu meiri en þeim hafði verið talin trú um.

Með rannsókn Alþingis á falli sparisjóðanna munu getgátur væntanlega víkja fyrir staðreyndum og málinu (Forseti hringir.) verða vísað í réttan farveg.