139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

málefni Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur.

[12:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þetta kallar á meiri umræðu í ljósi þess sérstaklega, sem ekki þarf að koma á óvart, að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningunum. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra getur reynt að skjóta sér undan flestu en hann getur ekki skotið sér undan því að nýju bankarnir, eftir að þeir voru stofnaðir, störfuðu undir lögbundnum eiginfjármörkum samkvæmt íslenskum lögum.

Hæstv. ráðherra vissi, eins og hér hefur komið fram, nákvæmlega eftir hrunið hvað hafði gerst. Hann kemur hingað upp og segir að þetta sé allt saman ábyrgð stjórnvalda og segir að ársreikningarnir hafi verið með nákvæmlega sömu veikleika og hjá stóru bönkunum fyrir hrun — þetta gerist eftir hrun, virðulegi forseti. Og hvað vildi hann gera? Fyrir hverju beitti hann sér sérstaklega gagnvart þeim hæstv. ráðherrum sem hann taldi að hefðu átt að vita um veikleika í ársreikningum bankanna fyrir hrun? Hvað gerði hann, virðulegi forseti? Hann beitti sér fyrir því að þeir yrðu dregnir fyrir landsdóm, hvorki meira né minna. Hann taldi að þessir aðilar hefðu átt að vita þetta allt saman. Núna hefur yfir 100 millj. kr. af skattfé almennings verið varið til að koma Geir H. Haarde í fangelsi. En hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni tókst ekki að koma fyrirrennara sínum, hæstv. fyrrverandi ráðherra Árna Mathiesen, Björgvini G. Sigurðssyni o.fl. í slíka stöðu.

Hæstv. ráðherra lýsti því yfir í mars 2009 að erfiðleikum á íslenskum fjármálamarkaði væri lokið og það væri sannfæring ríkisstjórnar að ekki kæmi til frekari lokana íslenskra innlánsstofnana. Síðan eru átta innlánsstofnanir búnar að falla og hæstv. ráðherra ber nákvæmlega enga ábyrgð. (Forseti hringir.)