139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Þetta mál þarf að vinna upp á nýtt í samstarfi allra þingflokka. Það var gert til að mynda um mjög umfangsmikið mál og umdeilt, vatnalögin, sem var hart deilt um hér á sínum tíma. Ég man að hæstv. fjármálaráðherra fór mikinn í þeirri umræðu. Þá var sett á fót sáttanefnd undir forustu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hún skilaði af sér afurð sem leiddi til þess að algjör sátt er um það mál. En ég býð ekki í það á hvaða leið við erum úr því að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem ég lagði fyrir hana í svari mínu við andsvari hennar.

Það er eðlilegt að ég spyrji þá hv. varaformann Sjálfstæðisflokksins hvort hún telji að þetta sé það sem koma skal. Munu nú hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin leggja fram breytingu á þingsköpum þannig að þau þurfi ekki yfir höfuð að standa hér og svara fyrirspurnum okkar þingmanna (Forseti hringir.) heldur verði enn frekar aukið við valdheimildir framkvæmdarvaldsins á kostnað Alþingis?