139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:28]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kem upp sem áhugamaður um stjórnmál. Athygli mín hefur reyndar beinst að því afbrigði í hugum einstakra stjórnmálamanna, sem stundum er kallað pólitískur geðklofi, þegar menn taka fyrst eina afstöðu og svo aðra án þess að sjáanlegur grunnur sé fyrir því.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson, varaformann Framsóknarflokksins, hvaða afstöðu hann hafi haft til stjórnarráðstillagna sérstakrar nefndar sem uppi var í Framsóknarflokknum á flokksþinginu 2007 annars vegar og 2009 hins vegar.