139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og mikla yfirferð þó að hún hafi verið í tveimur pörtum, fyrir mat og eftir. Hv. þingmaður kom mikið inn á foringjaræði og vitnaði í ræður sumra hæstv. ráðherra, t.d. hæstv. fjármálaráðherra.

Við vitum að hæstv. innanríkisráðherra er mikill prinsippmaður og framfylgir því sem hann hefur sagt í gegnum tíðina, hvort sem það er hér eða annars staðar. Þegar við fjölluðum um Icesave-málið á fyrri stigum gekk svo fram af hæstv. innanríkisráðherra þar sem mátti bara tala einni röddu í ríkisstjórninni að hann sagði af sér ráðherradómi til að mótmæla þeim vinnubrögðum. Því spyr ég hv. þingmann þar sem hæstv. innanríkisráðherra hefur athugasemdir við og efasemdir um þetta frumvarp hvort það gæti stafað af því sem hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt áður og eins því að hann þekkir til vinnubragða hæstv. forsætisráðherra.