139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að hæstv. innanríkisráðherra stóð sig vel framan af í Icesave-málinu. Ég hef hins vegar kallað eftir viðhorfum hans í þessari umræðu. Ég er búinn að biðja frú forseta, að ég held í þrígang, að kalla hæstv. innanríkisráðherra til þessarar umræðu sem og hæstv. leiðtoga stjórnarflokkanna. Hæstv. fjármálaráðherra hafði ekki einu sinni fyrir því að biðja um andsvar þegar hann kom hingað og hvorugur forustumanna ríkisstjórnarflokkanna er á mælendaskrá í þessu máli.

Við komum hér fram með margar spurningar sem við viljum fá svör við. Þeim er ekki svarað og ef hv. stjórnarliðum finnst það til sóma og vegsauka að menn hagi sér með þeim hætti þegar verið er að tala um að minnka völd og áhrif Alþingis Íslendinga og auka áhrif framkvæmdarvaldsins, hv. þm. Þuríður Backman, sem hv. þingmaður ætlar að styðja, blöskrar mér gjörsamlega. (Forseti hringir.) Ég mun tala aftur í þessu máli vegna þess að við erum ekki að tala um neitt smámál, við erum að tala um sjálft Alþingi Íslendinga og (Forseti hringir.) ákvarðanatökuvald þess.