139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og tek undir áhyggjur hans um þetta svokallaða foringjaræði. Þetta gengur út á að hæstv. forsætisráðherra geti gert nánast það sem honum dettur í hug á hverjum tíma, en við lifum í þeirri trú að þessi hæstv. forsætisráðherra starfi ekki lengi áður en allt fer fram af brúnum.

Við tilhugsunina um að þetta frumvarp verði samþykkt eins og það er koma strax upp í huga minn tvö málefni sem eru í andstöðu við það sem er að gerast, annars vegar það sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt um hugsanleg kaup á eignarlandi Grímsstaða á Fjöllum (Gripið fram í.) en hæstv. innanríkisráðherra sem hefur málið á sinni könnu hefur lýst ákveðnum efasemdum um það. Ég tek ekki afstöðu til þess en sér hv. þingmaður ekki að verði þetta frumvarp samþykkt gæti hæstv. forsætisráðherra tekið málefni Grímsstaða yfir á sitt borð úr höndum hæstv. innanríkisráðherra? Hins vegar er aðildarumsóknin að Evrópusambandinu (Forseti hringir.) sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stendur í lappirnar gagnvart — gæti hæstv. forsætisráðherra tekið þann málaflokk (Forseti hringir.) af honum?