139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson og raunar fleiri þingmenn í umræðunni hafa beint mjög mikilvægum spurningum bæði til hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra auk annarra hæstv. ráðherra í ríkisstjórn (MÁ: Hvaða spurningar …?) og engin svör koma frá þeim (MÁ: Hvaða …?) eins og til að mynda, hv. þm. Mörður Árnason, hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að beita þeim valdheimildum sem hæstv. forsætisráðherra falast eftir að verði fluttar frá Alþingi Íslendinga til framkvæmdarvaldsins.

Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra láti setja sig á mælendaskrá. Ég er á mælendaskrá og ég er tilbúinn að færa mig neðar svo hæstv. forsætisráðherra komist strax að í umræðunni. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég er sannfærður um það, frú forseti, að það gæti stytt þessar umræður verulega ef hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra kæmi hingað, gerði grein fyrir málinu og svaraði þeim spurningum sem hefur verið beint til hennar.