139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Við sjáum nú í þessari umræðu um hver stýri þinginu, að það getur verið munur á því sem menn setja á blað um hvernig hlutirnir eiga að vera og svo hvernig þeir eru í raun. Þetta minnir okkur enn frekar á mikilvægi þess að reyna að minnsta kosti að setja hlutina þannig á blað að ekki sé hægt að misnota þá og er góð viðvörun í umræðunni sem nú á sér stað um hættuna sem fylgir því að auka enn vald hæstv. forsætisráðherra.

Á meðan hæstv. forsætisráðherra sér sér ekki fært að taka þátt í umræðunni þá gerir hún kannski ekki það gagn sem hún ætti að gera. Það hlýtur að vera forsenda þess að við getum lagað málið og gert á því breytingar að hæstv. forsætisráðherra hlusti á rökin í málinu. Þess vegna legg ég til að menn noti tímann í millitíðinni til að ræða einhver af þeim fjölmörgu málum sem hér bíða sem eru svo mörg á dagskrá að venjulegt blað dugar ekki lengur til. Það þarf ströngul til að koma dagskrá dagsins fyrir. Væri nú ekki ráð og bæri það ekki vott um verksvit, eins og hv. þm. Árni Johnsen mundi orða það, að grynnka eitthvað (Forseti hringir.) á dagskránni á meðan við bíðum þess að hæstv. forsætisráðherra sjái sér fært að taka þátt í umræðunni um aðaláhugamál sitt?