139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fundarstjórn forseta á hinum svokallaða septemberstubbi. Stubbur í mínum huga er eitthvað lítið og stutt og lagt var upp með að þingið ætti að vera níu dagar, enda sjáið þið, hv. þingmenn, að svona var dagskráin fyrsta daginn, bara ein lína. Svo liðu fjórir dagar, þá var dagskráin orðin svona. Nú erum við komin á dag níu og þá er dagskráin orðin svona. Það verða varla til stærri blöð til að koma fyrir dagskrármálum ríkisstjórnarinnar sem á að taka fyrir á þessum stubbi, sem samkvæmt íslenskri málnotkun þýðir eitthvað lítið. Hér eru 46 mál á dagskrá.

Ekki nóg með það heldur erum við föst í umræðu um mál sem fótunum var kippt undan í gær með ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar sem var formaður þingmannanefndar sem var falið að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann hrakti nánast hvert einasta atriði í frumvarpinu (Forseti hringir.) og benti á að allar röksemdir í frumvarpinu væru meira og minna byggðar á blekkingum.

Frú forseti. Frumvarpið (Forseti hringir.) er ekki þingtækt.