139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég flutti ræðu áðan þar sem ég varpaði fram nokkrum fyrirspurnum. Mig langar að spyrja hæstv. forseta að því hvort hann hafi gert hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni grein fyrir því að ég hafi varpað fram spurningum til þeirra sem ég vilji fá svör við. Það er ansi merkilegt að fylgjast með Vinstri hreyfingunni – grænu framboði berjast með hæstv. forsætisráðherra fyrir því að minnka valdheimildir Alþingis og auka veg framkvæmdarvaldsins, fela hæstv. forsætisráðherra alræðisvald yfir því hvernig hún eigi að haga fyrirkomulagi Stjórnarráðsins og skauta þannig fram hjá lýðræðislega kjörnu Alþingi. Öðruvísi mér áður brá. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er gersamlega búin að snúa við blaðinu frá því þegar hún talaði fyrir nokkrum mánuðum síðan um að auka veg og virðingu Alþingis. Þvílík stefnubreyting. Þetta er að verða hálfgerð vindhanapólitík.