139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður fór yfir margt áhugavert í ræðu sinni en í upphafi hennar kallaði hann eftir því að hæstv. forsætisráðherra og aðrir ráðherrar hlýddu á mál hans þannig að þeir gætu tekið þátt í rökræðu um það sem hann hefði fram að færa. Hann gerði í andartak hlé á ræðu sinni til að bíða eftir hæstv. ráðherrum.

Það er aðferð sem menn notuðu stundum hér áður fyrr. Steingrímur Hermannsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, þurfti stundum að tala mikið um nokkur mál og átti þá til að gera einfaldlega hlé á ræðu sinni og þegja í ræðustól uns ráðherrar mættu í salinn. Ég velti því fyrir mér í framhaldi af ræðu hv. þingmanns hvort það sé orðið nauðsynlegt fyrir okkur til að fá ráðherra til að taka þátt í umræðunni. Við komumst ekki mikið áfram með málið ef við getum ekki fengið rökræðu við ráðherrana.