139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst undan því að vísa beint til þess sem gerðist í þeirri ríkisstjórn sem ég var með í með hæstv. forsætisráðherra en kýs frekar að skoða ákveðnar staðreyndir, af því að það er mjög mikilvægt að við skoðum málin út frá því hvað gæti gerst í þessari ríkisstjórn. Ég er ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli þegar ég segi að núverandi hæstv. forsætisráðherra hafi stundað hótanapólitík. Það er almenna reglan, það er hótanapólitík og hún fer í hana opinberlega ef svo ber undir. Við vitum það öll sem erum í þessum sal og vorum kosin á þetta þing hvernig hlutirnir gengu fyrir sig í Icesave og ESB-málinu.

Að láta hæstv. forsætisráðherra, sama hver það er, en þó sérstaklega hæstv. forsætisráðherra sem beitir slíkum aðferðum, fá aukin völd til þess að taka á þeim sem (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra telur að séu óþekkir, (Forseti hringir.) held ég að sé ekki skynsamlegt fyrir lýðræðið.