139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég endaði mál mitt í ræðu minni áðan eru nokkur atriði sem við verðum að ná samkomulagi um, það eru ekki augnabliksmál. Ekki er hægt að búast við því að hægt sé að þröngva málum hér í gegn á fjögurra ára fresti.

Ég tók líka dæmi um sjávarútvegsmál, sem til dæmis hafa verið upp í loft á fjögurra ára fresti, þessi kosningamál. Ekki er heldur hægt að hafa málefni einnar atvinnugreinar upp í loft á fjögurra ára fresti, það er ekki hægt.

Við verðum að ná samkomulagi um þessa stóru þætti í samfélagi okkar. Þannig getum við breytt þeim. Það þýðir auðvitað að þeir sem vilja breyta öllu verða að breyta hægar. Það er einmitt reynslan á Norðurlöndunum. Fagleg og vönduð vinnubrögð snúast oft og tíðum um að ná markmiðum sínum heldur hægar en með meiri hluta á bak við sig.

Það sem við erum að gera í þessari umræðu í dag og síðustu daga er að kalla eftir rökum fyrir því að ganga svona langt og breyta svona miklu. Um það eru veruleg pólitísk átök, það er alveg rétt. Á bara að kjósa um það og svo eftir fjögur á þá að breyta því aftur? Það er ein leið, en er það skynsamlegt? Eru það fagleg og vönduð vinnubrögð?

Er ekki faglegra og skynsamlegra að vinna þannig að samstaðan sé breiðari? Ég er ekki að tala um að hægt sé að ná öllum á öll mál. En það eru nokkur lykilmál sem við þurfum að ná saman um. Þetta er eitt þeirra. Ég nefndi nokkur önnur áðan og fleiri hafa nefnt þetta hér. Líka þeir sem standa í forsvari fyrir því að breyta svo mörgu í samfélaginu. Ég er ekki viss um að það sé það sem fólk hér úti er að kalla eftir og hrópa á.

Ég nefndi það líka í ræðu minni að kannski hefði verið skynsamlegra að leggja meiri áherslu á að tryggja fólki atvinnu og starfsöryggi, að slík mál séu ekki hér upp í loft, að við tölum um þau í eina eða tvær mínútur í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra.