139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Því er snöggsvarað. Stjórnarandstaðan sér ekkert fjárlagafrumvarp fyrr en það kemur fram. Stjórnarliðarnir taka þátt í gerð þess með einhverjum hætti, mismunandi mikið þó, en stjórnarandstaðan nýtur ekki þeirrar náðar að fá að sjá plaggið fyrr en það birtist hér í þingsölum 1. október, fyrsta skjal þingsins.

Það er ýmislegt í frumvörpum sem við höfum verið að fá fram núna sem gerir ráð fyrir auknum útgjöldum. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ætlunin er að fjármagna það. Til að mæta því eru bara tvær leiðir: Annars vegar að reyna að slá meiri lán og hins vegar að skera niður. Það verður forvitnilegt að sjá það.

Ég veit bara til þess að umræðan innan þingsins um fjárveitingar hefur ekki verið í þá veru að auka fjárveitingar til Alþingis með sama hætti og ætlunin er til Stjórnarráðsins. Það þykir mér miður vegna þess að á undanförnum árum (Forseti hringir.) bera fjárveitingar þess vitni að Stjórnarráðið hefur fengið miklu meiri (Forseti hringir.) vöxt í sínar en þingið nokkurn tímann.