139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þingmaðurinn höfum sameiginlega skoðun á því að Alþingi beri að styrkja mjög fjárhagslega og faglega. Svo virðist vera sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur hafi tekið aðra stefnu og moki bæði til sín fjármagni og völdum, t.d. í gegnum frumvarp þetta. Það kemur varla fram það frumvarp í þinginu við innleiðingu EES-gerða öðruvísi en mikill kostnaðarauki felist í því, auk fjölgunar opinberra starfa. Það er verið að fjölga mjög störfum í opinbera geiranum. Það er kannski stefna ríkisstjórnarinnar að fjölga störfum þar.

Hvernig sér þingmaðurinn vandamálið við fjárlagagerðina fyrir sér með t.d. þau frumvörp sem hafa orðið að lögum með miklum starfsmannafjölda og kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, ég vísa t.d. í frumvarpið sem er farið í gegnum umhverfisnefnd, ef ekki er gert ráð fyrir því á tekjuhlið ríkisins? (Forseti hringir.) Þetta er afar vanhugsað, frú forseti.