139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur hv. þm. Kristján Þ. Júlíusson greinir á um 2. gr. frumvarpsins. Ég er þeirrar skoðunar að hún auki sveigjanleika og skilvirkni framkvæmdarvaldsins. Ég er einnig þeirrar skoðunar að aðskilnaður valdþáttanna verði skýrari en verið hefur. Að því leyti er það í anda rannsóknarskýrslunnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um hug hans til málamiðlunartillögu þeirrar sem lögð hefur verið fram. Hún gerir ráð fyrir því að í stað þess að 2. gr. sé eins og hún er núna, þ.e. að ráðuneytin séu ákveðin með löggjöf, verði lögð fram þingsályktunartillaga í þinginu um ráðuneytin, hún rædd í einni umræðu og greidd atkvæði um hana. Hver er hugur þingmannsins til þeirrar málamiðlunartillögu?