139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Ég þarf ekkert að efast um hvort þetta er rétt. Formaður þingmannanefndarinnar talaði hér í nótt og fullyrti að svo væri og færði fyrir því rök. Hér liggur ræða hans prentuð út í þinghúsinu því að svo mikla athygli vöktu ummæli hv. þm. Atla Gíslasonar. Hann sýndi mikinn kjark og kom fram með það beint að þetta frumvarp er byggt á blekkingum, eins og ég sagði áðan.

Ég skal nefna annað dæmi. Hér liggur fyrir þinginu frumvarp til upplýsingalaga. Fenginn var mjög hæfur stjórnsýslufræðingur til að semja það frumvarp. Þegar sá aðili kom fyrir allsherjarnefnd og ég spurði hverju hefði verið breytt í meðförum forsætisráðuneytisins sagði hann nánast að hann kannaðist varla við frumvarpið, svo mikið var búið að hræra í því í forsætisráðuneytinu, líklega á lagaskrifstofu Stjórnarráðsins sem hæstv. forsætisráðherra stofnaði. En það er akkúrat mergurinn málsins. Það er ekki verið að styrkja Alþingi eins og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar heldur er farin sú leið að pikka það út (Forseti hringir.) sem hentar hæstv. forsætisráðherra og mylja meira vald og fjármagn undir Stjórnarráðið.