139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal dró ég upp þá mynd sem við sáum í vor þegar breyta átti ráðuneytum og í ljós kom að ekki var þingmeirihluti fyrir þeim breytingum sem átti að gera. Ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er að eins og ég skil frumvarpið sem hér er lagt fram, ég hef reyndar þann fyrirvara á og tek þar undir með hv. þm. Pétri Blöndal að ekki hafa fengist svör við þeim spurningum sem hafa verið settar fram, þar á meðal um þetta, að hér var samþykkt að stofna velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti. Við höfðum mörg okkar alls konar skoðanir á því hvort þetta væri skynsamlegt eða ekki. Ég persónulega hafði og hef efasemdir um velferðarráðuneytið, ég held að það sé of stórt en kannski er of snemmt að dæma um það hvort ég hef rétt fyrir mér eða ekki.

Ég vek hins vegar athygli á þessu vegna þess að ef frumvarpið verður samþykkt eins og það lítur út, fer þessi öryggisventill út eða þessi mæling, ef það má orða það þannig, sem þingið er, á því hvort raunverulegur þingstyrkur sé fyrir breytingunum. Ég held að hverri ríkisstjórn sé það mjög hollt, hvaða ríkisstjórn sem er, lýðræðisins vegna, að þurfa að koma til Alþingis og fá hjá því stimpil, að meiri hluti sé fyrir því sem ráðherrarnir, eða forsætisráðherra í þessu tilviki, leggur til. Dæmin sanna að ekki er nóg að hafa þingmeirihluta á pappírunum ef ósætti er innan stjórnarflokkanna um hvernig málunum skuli lykta.

Því er afar mikilvægt að gerðar sé breytingar á þessu frumvarpi, ef það á að nást um það þokkaleg sátt, þó ekki væri nema það, því þetta getur ekki gengið svona, frú forseti, þegar við höfum vítin til að varast.

Ef ætlunin með frumvarpinu er hins vegar sú að forsætisráðherra eða framkvæmdarvaldið þurfi ekki að hafa tryggan meiri hluta fyrir breytingunum, er ósköp eðlilegt að þetta sé sett fram svona. Það verður hins vegar að segjast eins og er, að minnsta kosti er það mín skoðun, að það sé mjög óeðlilegt að framkvæmdarvaldið geti hugsanlega gert breytingar á Stjórnarráðinu eins og hér er sýnt í andstöðu við meiri hluta Alþingis. Hvert sækir þá sú ríkisstjórn eða það framkvæmdarvald heimildir sínar og stuðning við slíkum breytingum? Jú, einhvern stuðning hefur hún innbyrðis og í minni hluta þingsins. Þar af leiðandi þurfum við, frú forseti, að hafa þetta sýnidæmi, ef má orða það þannig, sem við fengum í vor, uppi við þegar við ræðum þetta mál og þær heimildir sem um er að ræða. Ég skal hins vegar fúslega taka við leiðbeiningum eða ábendingum ef það er misskilningur að svo sé.

Þar af leiðandi held ég að þetta undirstriki þau orð sem komið hafa frá ýmsum þingmönnum, m.a. þingmönnum sem sátu í þingmannanefndinni svonefndri, að þessar breytingar séu ekki til þess að styrkja lýðræðið, ekki til þess að styrkja Alþingi, ekki til þess að auka áhrif Alþingis eða til að tryggja lýðræðislega niðurstöðu, heldur til að auka á foringjaræðið, oddvitaræðið, sem svo mikið hefur verið gagnrýnt og varað við.

Ég veit, frú forseti, að skiptar skoðanir eru um þetta innan stjórnarflokkanna. Það vitum við öll. En hæstv. forsætisráðherra hefur mikinn áhuga á að ná þessu máli fram. Kannski má setja sig í þau spor að vera í þeirri stöðu og geta ekki náð fram þeim áhugamálum eða breytingum sem ráðherrann vill til að ná öðrum hugðarefnum sínum fram, og þess vegna sé farið fram með þessum hætti. Það getur ekki verið réttlætanlegt í kjölfar alls sem sagt hefur verið og skrifað og ég vil meina þess sem lofað hefur verið að breyta eftir þær hremmingar sem íslensk þjóð gekk í gegnum og þá endurskoðun sem hefur farið fram á stjórnkerfinu, stjórnsýslunni og vinnubrögðum hér.

Eitt af því sem er mjög sorglegt við þetta, frú forseti, er að manni sýnist að forustumenn stjórnarflokkanna hafi ekki tekið mark á þeim niðurstöðum og meginábendingum sem fram hafa komið eftir hrunið. Í frumvarpinu eru ágætar greinar sem eru til þess fallnar að laga hlutina en þær eru of fáar. Og því miður gera breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar frumvarpið í rauninni verra en það upphaflega var, þó að það hafi verið slæmt. Í einhverjum tilfellum má fullyrða að svo sé.

Dæmi um óskýrleikann í frumvarpinu er t.d. 18. gr. þar sem rætt er um skipunarbréf eða erindisbréf fyrir ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra, sem er örugglega ekki svo flókið að setja, en það getur verið ansi snúið að setja eða skrifa erindisbréf fyrir aðstoðarmann ráðherra því það starf er mjög opið. Þetta tek ég bara sem dæmi um að ég held að frumvarpið sé ekki nógu vel hugsað eða nógu vel unnið. Það kann vel að vera að það sé því marki brennt að hæstv. forsætisráðherra er mjög áfram um að fá frumvarpið samþykkt.

Í ljósi þess sem sagt hefur verið og í ljósi dæmisins sem ég nefndi áðan, vona ég svo sannarlega, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra gefi heimild fyrir því að gerðar verði breytingar á frumvarpinu svo ljúka megi málinu og umræðunni um málið, því ef svo verður ekki verður málið áfram jafnvont og jafnhættulegt. Við eigum að hafa vítin til varnaðar og við þurftum að tala býsna lengi um mál sem kallaðist Icesave-málið og margir muna eftir. Sem betur fer tókst okkur að koma í veg fyrir að það yrði samþykkt. Þar stóð stjórnarandstaðan nokkurn veginn saman og sumir úr stjórnarliðinu. Ég vildi svo sannarlega að það væri einnig gert núna, því það getur ekki verið að meirihlutavilji sé fyrir því, þótt því sé haldið fram, að veikja Alþingi, að veikja löggjafann og færa völd til framkvæmdarvaldsins og þar með að hunsa meginábendingar þingmannaskýrslunnar.

Fleiri en einn þingmaður hafa bent á að þær fullyrðingar sem fram koma í frumvarpinu um að það byggi á þingmannaskýrslunni standast ekki. Hv. formaður nefndarinnar, Atli Gíslason, þingmaður sem er títtnefndur í málinu sem er ekkert óeðlilegt vegna stöðu þingmannsins í því, hefur sagt að þessi fullyrðing sé röng, þar með sé grunninum kippt undan frumvarpinu. Við hljótum því að þurfa að senda frumvarpið aftur til föðurhúsanna svo það verði samið á réttum grunni og á réttum forsendum. Við vitum að þegar við förum af stað í eitthvert verkefni með rangar forsendur verður útkoman í flestum tilfellum röng. Ef maður setur líka inn í forritið fyrir fram gefnar upplýsingar svo maður viti hver niðurstaðan verður, einfaldar það að sjálfsögðu alla hluti. Þessi tilvísun í það á hverju frumvarpið byggir — ég velti fyrir mér hvort þau mistök, sem ég kýs að orða svo, séu mistök eða hvort verið sé að reyna að lyfta frumvarpinu upp og veita því meiri þyngd með því að finna þannig rökstuðning fyrir breytingunum.

Ég ítreka að lokum, frú forseti, að dæmið frá því í vor er ljóslifandi fyrir framan okkur. Það var ekki þingmeirihluti fyrir ákveðnum breytingum þrátt fyrir að samkvæmt tölunum ættu stjórnarflokkarnir að hafa þann þingmeirihluta. Hann var ekki til staðar, þess vegna felldi þingið eina breytinguna sem átti að gera.