139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir þessa ágætu ræðu. Nú er það svo að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson ásamt þeim sem hér stendur og öllum öðrum alþingismönnum, samþykkti þingsályktunartillögu 63:0 sem var gerð í kjölfar þess að þingmannanefnd fór yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og kom með ákveðnar breytingar. Í þeirri þingsályktunartillögu segir m.a., með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar og mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Þetta er einmitt stóra málið í umræðunni, að þingið verji og styrki sjálfstæði sitt. Nú kemur fram frumvarp með þessari valdatilfærslu frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra. Ákveðnar hugmyndir að breytingum hafa komið fram. Ég tek undir það (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður sagði áðan um að þær gengu ekki nógu langt. En sér hv. þingmaður fyrir sér einhverja aðra lausn á málinu en bara þá (Forseti hringir.) að fram fari umræða um þrjú lagafrumvörp eins og er í dag?