139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur formfesta einnig verið svolítið til umræðu og að ekki sé jákvætt að alltaf sé verið að hringla í Stjórnarráðinu og gera eilífar breytingar á því, oft á hverju kjörtímabili. Hv. þingmaður hefur reynslu af því að sitja í ríkisstjórn og er raunar einn af þeim fáu, jafnvel kannski sá eini — ég veit ekki til þess að margir þingmenn sem hafa reynslu af því að sitja í ríkisstjórn hafi tekið þátt í þessari umræðu. Varðandi breytingar á Stjórnarráðinu, ráðuneytisskipan og öðru slíku, telur hv. þingmaður það ekki vera eðlileg vinnuviðmið — það er kannski erfitt að setja það inn í lög — að ekki sé verið að hringla oft í Stjórnarráðinu á kjörtímabili? Er ekki eðlilegt, eins og menn hafa talað um og hv. þm Illugi Gunnarsson kom inn á í gær, að skynsamlegt væri að menn næðu samkomulagi um að breytingar væru hugsanlega gerðar í upphafi (Forseti hringir.) kjörtímabils en síðan væri það látið óhreyft það sem eftir lifði kjörtímabilsins?