139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan í ræðu minni að ég væri ekkert kategorískt á móti því að sameina ráðuneyti, ég væri heldur ekkert á móti því að gerðar væru breytingar á fyrirkomulagi innan Stjórnarráðsins. Auðvitað þarf það að taka tilteknum breytingum eins og flest annað í okkar samfélagi.

Varðandi breytinguna árið 2007 þá var þar opnað á heimild til þess að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands. Með því er auðvitað ekki gengið eins langt og í frumvarpinu sem við ræðum hér, hvað þá frumvarpinu með þeim breytingartillögum sem kynntar hafa verið af meiri hluta allsherjarnefndar. Við vorum auðvitað að reyna að stefna að hagræðingu í ríkisrekstri með þeirri sameiningu sem átti sér stað á árinu 2007. Ég vona að það hafi gengið eftir. Ég held að sú sameining hafi verið góð. Ég held að hún hafi orðið til þess að styrkja bæði sjávarútveginn og landbúnaðinn. Ég held að það sé alveg rétt að ráðuneyti þurfi að vera af ákveðinni stærðargráðu. Ég var t.d. ekkert svo óskaplega skeptískur á hugmyndir um velferðarráðuneytið á sínum tíma og sérstaklega ekki innanríkisráðuneytið en ég skal játa það, eins og ég nefndi áðan, að ég er farinn að fá bakþanka um það. Ég velti því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt að búa til svona stór ráðuneyti, hvort við verðum ekki einfaldlega að búa við aðeins minni ráðuneyti og hafa þá fókus. Það þýðir samt ekki að ég sé á móti öllum sameiningum, það þýðir ekki að ég vilji hafa einhver örráðuneyti. (Forseti hringir.) Sameinað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið var kannski með um 40 starfsmenn, ef ég man rétt. Ég held að það gæti verið eitthvað viðmið um skynsamlega lágmarksstærð ráðuneyta.