139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:38]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal bara reyna að svara eins heiðarlega og ég get. Mér er ekki kunnugt um að svo langt hafi verið komið að hugmyndir um frekari sameiningar ráðuneyta í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi verið komnar í tillöguform. En það er alveg rétt, menn voru með augun opin fyrir því að skoða þessi mál. Á sínum tíma, þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið varð til, varð líka frekari uppstokkun. Þá fóru t.d. landbúnaðarskólarnir frá ráðuneytinu til menntamálaráðuneytisins. Ég taldi það eðlilegt. Þegar ég horfi núna í baksýnisspegilinn set ég hins vegar meiri spurningar við það þegar við tókum bæði Skógræktina og Landgræðsluna frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og settum í umhverfisráðuneytið. Þó var sá munur á að gert var ráð fyrir því að landshlutaræktunin og bændaskógarnir yrðu áfram hjá landbúnaðarráðuneytinu. Það má því segja að við fórum í býsna mikla uppstokkun. Mér fyndist mjög áhugavert að farið væri í þessi mál með einhverjum (Forseti hringir.) skipulegum hætti þar sem stofnanasamsetningin á bak við ráðuneyti væri líka skoðuð.