139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hygg að flestir hv. þingmenn hafi skilning á því að hæstv. forsætisráðherra geti ekki verið í þingsal allan þann tíma sem umræður standa og að hæstv. forsætisráðherra kann að þurfa að sinna erindum annars staðar í þinghúsinu eða jafnvel annars staðar í bænum.

Ég held hins vegar, hæstv. forseti, að þingmenn hafi ekki skilning á því að hæstv. forsætisráðherra geti ekki svarað svona einföldum spurningum dögum saman, hæstv. forseti, því að þær spurningar sem vikið var að áðan í ræðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar komu, hygg ég, fyrst fram á mánudaginn, alveg örugglega á þriðjudaginn. Ég hygg að ég hafi endurtekið þær tvisvar sinnum í gær með þeim kurteislegu tilmælum að ef hæstv. forsætisráðherra heyrði til mín óskaði ég eftir svari, ekki endilega strax, en ég óskaði engu að síður eftir svari. (Forseti hringir.) Þegar svörin dragast dögum saman dregur auðvitað úr þolinmæði hv. þingmanna, hæstv. forseti.