139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hafa verið haldnar margar ræður. Ein ræða í gær hjá hv. þm. Atla Gíslasyni endaði á eftirfarandi orðum, með leyfi forseta: „Virðing Alþingis er í húfi, herra forseti.“ Í þeirri ræðu fjallaði hann um hvernig frumvarp þetta er að færa valdheimildir frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra og þær miklu áhyggjur sem hann hafði af því. Það er ekki nema von, herra forseti. Meðan alþingismenn sitja hér og ræða þá þróun er ekki nema von að mönnum verði svolítið heitt í hamsi þegar hæstv. forsætisráðherra er ekki tilbúin til að svara þeim augljósu spurningum sem vaknað hafa um málið, eins og þeim af hverju hæstv. forsætisráðherra sækist eftir þessum valdheimildum og hvernig hæstv. forsætisráðherra hyggst nýta þær valdheimildir. Þetta eru einfaldar og skýrar spurningar sem hafa komið mjög oft fram í umræðunni. (Forseti hringir.) Það hryggir mig, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki enn séð sér fært að svara þeim einföldu spurningum.