139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:09]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það mál sem hefur verið til umræðu í fjóra daga í þessari lotu (Gripið fram í.) hefur verið í vinnslu í þinginu í nokkuð langan tíma í vetur. Ljóst er að það er núna á höndum þingsins. Við þessa umræðu hefur hv. formaður allsherjarnefndar, Róbert Marshall, og fleiri, setið dyggilega til að svara. Það er nefndarinnar, (Gripið fram í: Það er enginn sem svarar.) allsherjarnefndar og þingsins að svara.

Hvað varðar þær spurningar og athugasemdir sem hér hafa komið fram þá eru þær ásamt mörgum breytingartillögum sem nefndin hefur lagt til nú til afgreiðslu. Ljóst er að þau ágreiningsmál sem uppi eru verða ekki leyst hér í ræðustólnum. Það er verið að reyna að leita lausna. Fram hefur komið breytingartillaga undir þessari umræðu (Forseti hringir.) sem verið er að vinna með. Ég tel rétt að hv. þingmenn leggi okkur lið þannig að við vinnum saman að því að finna lausn á þessu máli. (Gripið fram í: Hvernig væri þá að svara okkur?)