139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, formanni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að tillaga er komin fram til lausnar á málinu sem miðar að því að leysa þann mikla hnút sem þetta mál, frumvarp um Stjórnarráðið, er komið í. Það er tillaga sem við þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks afhentum forseta Alþingis nú fyrir stundu sem innlegg okkar í það að reyna að greiða fyrir málinu. Ég vona svo sannarlega að það verði virt viðlits og það verði skoðað í alvöru, vegna þess að af okkar hálfu fylgir hugur máli. Þarna erum við að leggja okkar að mörkum þrátt fyrir að maður lesi ummæli hæstv. forsætisráðherra að við sýnum ekkert annað en óbilgirni og ofbeldi. Mér þótti mjög miður að lesa það, en ég vona að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) hafi þar með náð og fengið útrás fyrir ergelsið og horfi á þessar tillögur okkar með opnari huga.