139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er alveg sjálfsagt mál að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir haldi ræðu sína. Vonandi berast okkur þá einhver svör um afstöðu stjórnarmeirihlutans í málinu. En að því búnu held ég að það væri mjög æskilegt, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti á, að gera hlé á fundi svoleiðis að við getum spurt hæstv. forsætisráðherra út í þetta stóra mál forsætisráðherrans. Það er ekki eingöngu gert til þess að þjóna hagsmunum og áhuga stjórnarandstöðunnar. Það þjónar ekki síður því sem virðist vera markmið stjórnarmeirihlutans að umræðurnar klárist sem fyrst. Hér hafa margir stjórnarliðar lýst yfir miklum áhuga á því að þessar umræður fari að klárast. Þær klárast að sjálfsögðu ekki fyrr en við fáum einhverja umræðu, einhverja samræðu, dálítil samræðustjórnmál jafnvel, um þessa tillögu. (Forseti hringir.) Á meðan engin svör berast hafa menn engan kost annan en (Forseti hringir.) að ítreka spurningarnar.