139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hverju orði sannara, ég hefði gjarnan viljað fá tækifæri til að fella það. Það var hins vegar ekki þingmeirihluti fyrir málinu og þess vegna náði það ekki í gegn. (Gripið fram í.) Það vita allir, frú forseti, að það var ekki þannig.

Mig langar að velta upp annarri spurningu. Hv. þingmaður staðfesti að málið hefði ekki þurft að koma hingað inn. Í 1. gr. stjórnarskrárinnar stendur:

„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.“

Þarf stjórnin ekki að sækja umboð sitt til Alþingis? Og þá líka í framhaldinu: Getur verið að þetta frumvarp hafi verið skoðað í því samhengi að þessi heimild fari á skjön við stjórnarskrána, þ.e. að framkvæmdarvaldið geti breytt hlutunum með þessum hætti án þess að Alþingi eigi kost á að fjalla um málið? (Forseti hringir.) Var það skoðað sérstaklega?