139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp felur það samt í sér að það er verið að færa þetta vald frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra. Hv. þm. Atli Gíslason benti á það hér í gær og fleiri þingmenn sem áttu sæti í þessari þingmannanefnd hafa bent á það í ræðum sínum. Ég minni meðal annarra á hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Það er ekki hægt að fjalla um málið með þessum hætti.

Mig langar að spyrja aftur hvort það standi til að ræða eitthvað við eða hvort þingmaðurinn sjái ekki ástæðu til þess að ræða við þingmannanefndina í ljósi þess sem er búið að upplýsa hér að meginþáttum í þessu frumvarpi ber ekki saman við skýrslu þingmannanefndarinnar þrátt fyrir að vitnað sé til þess í frumvarpinu að það sé unnið í samræmi við skýrslu þingmannanefndarinnar. Það er alveg ljóst að það (Forseti hringir.) er ekki hægt að tala með þessum hætti.